miðvikudagur, júní 14, 2006

Algjör sveppur...


Komið þið öll heil og sæl ættingjar mínir og vinir. Það eru þrjár vikur frá síðustu innfærslu. Húsfreyjunni á heimilinu hefur tekist að vera hundlasin af sveppasýkingu með verkjum og sálin því ekki upp á marga fiska. Tala nú ekki um þegar þarf að fara láta lækninn inspektera viðkvæma staði. En læknisheimsóknin borgaði sig. Rétt lyf voru tekin í notkun og núna loksins er heilsan að koma tilbaka og orkan með. Um leið er vorið að koma aftur hér á norðurlandinu eftir óvenju kaldan og snjóþungan maí. Um helgina komst hitinn yfir 20°C en hrökk síðan niður í 10°C á mánudeginum. Gróðurinn hefur sloppið fyrir horn og sprettur nú á yfirhraða. Kominn tími á slátt nr. 2 hér á túninu. Rabarbarinn er að ná hálfsmeters hæð og smakkast ágætlega í hinum ýmsu desertum. Annars hefur tímanum verið eytt við að fylgjast með Eurovision, kosningum og nú síðast en ekki síst heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Það var töluverður vafi á því hvort ég ætlaði að halda með ítölum, frökkum, spánverjum eða Brasilíumönnum. Eftir leikinn í dag er ég harðákveðin. Spánverjar eru mitt lið, möluðu Úkraínu með glæsibrag. Ekkert boltaþóf á þeim bæ. Svo eru þetta líka flottir strákir með æðislega sexý læri og afturenda. Alveg þess virði að horfa á einn fótboltaleik til að dást að þeim. Við skulum leyfa vorinu að seytla inn í uppskriftirnar okkar. Hér kemur einn rababaradesert.

Blogguppskriftin

Rabarbara- “crisp”

4 bollar af rabarbara skorin í litla bita
½ tsk salt
1 1/3 – 2 bollar sykur (fer eftir því hversu súr rabbinn er)
¾ bollar hveiti
1 tsk kanell
1/3 bolli smjör eða smjörlíki

Hitið ofninn í 175°C. Setjið rabarbarabitana í ósmurt gler- eða leirfat og dreifið salti yfir. Setjið sykur, hveiti og kanel í skál, myljið smjörið saman við (mjög þægilegt að gera þetta í matarvinnsluvél) og dreifið í jöfnu lagi yfir rabarbarann. Bakað í ofni 40 til 50 mín eða þangað til deigið er gullinbrúnt að ofan. Borið fram heitt með léttþeyttum rjóma eða góðum vanilluís. Dugar fyrir 6 manns.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...


Þú horfir greinilega á það sama og ég þegar ég horfi á "fótbolta":)
Ég held ég haldi bara með sama liði og þú þar sem við erum að fara að heimsækja Spánverjana.
Kveðja,
Guðrún Björk

4:01 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home