Sólardagar...

Hér á norðurlandi er líka letilíf eins og í Kópavoginum. Ég flatmaga á þakinu, les og hugsa um hvernig ég geti komist af með að gera sem allra minnst. Í dag er sólskin, 20 stiga hiti og mild sunnangola en gott skjól af stóru reynitrjánum okkar. Einu hljóðin sem heyrast eru drunur í sláttuvélum og garðáhöldum ýmis konar og á klukkustundarfresti heyrist í kirkjuklukkunum. Fuglarnir er jafnlatir og mannfólkið í dag. Ekkert tíst og enginn söngur. Það fer líka að líða að þeim tíma sem grilllyktin leggst yfir allt. Ég hef verið löt að skrifa hér inn. Ég verð að byrja á því að óska litlu, stóru skrúfunni minni henni Birtu til hamingju með 7 ára afmælið 16. júní s.l. Svo óskum við Sigga tengdasyni til lukku og góðs gengis með vinnuna hjá Centropa. Lars von Trier er greinilega ekki búinn að fá nóg af Íslendingum. Að síðustu og ekki síst óskum við Þórhildi til hamingju með afmælið í dag og vonum að systurnar skemmti sér vel á Mallorca í dag. Það er ekki nógu heitt í dag til að búa til Gazpacho (köld tómatsúpa) en í staðinn kemur svöl uppskrift.
Blogguppskriftin
Kjúklingasalat frá Hawai
1 grillaður kjúklingur
1 lítil dós af ananas í bitum eða 1 ferskur ananas skorinn í bita.
1 græn paprika fræhreinsuð og skorin í netta bita
40 gr ristaðar möndlur heilar eða klofnar að endilöngu.
½ bolli majónes (létt)
¼ bolli sýrður rjómi (fitulítill)
1-2 tsk gott sinnep
Gott salat, iceberg eða höfuðsalat
Skreyting: Tómatar og agúrkur
Kjötið rifið af kjúklingnum og skerið í bita. Majónes, sýrður rjómi og sinnep hrært saman með smávegis af ananassafanum (eftir smekk). Kjötinu, ananas, papriku og ríflega helmingnum af möndlunum blandað saman við sósuna. Slatti af grænu salati lagt á fat sem undirlag. Kjúklingasalatinu hellt ofan á þau. Tómatbátum og agúrkusneiðum raðað í kring og að síðustu er restinn af möndlunum dreift yfir. Borið fram með góðu baguette brauði eða ristuðu brauði. Dugar fyrir fjóra.