fimmtudagur, janúar 10, 2008

Annað afmæli ársins...

Guðmundur litli bróðir minn á afmæli í dag. Við sendum honum innilegar kveðjur og vonum að hann fái gott að borða og koss frá Dísu í desert. Ég var að lesa yfir bloggsíður fjölskyldunnar og njóta þess að lesa um eldamennskuna yfir jólin og áramótin! Þá rann það allt í einu upp fyrir mér að aðaláhugamál okkar er sælkeraeldamennska. Þar er bróðir minn enginn aukvisi. Hjá honum hef ég t.d. borðað frábæran fylltan kjúkling, svo ekki sé talað um pæjana sem hún mágkona mín eldar af mikilli list. Kannski tekst mér að heimsækja þau áður en langt um líður og njóta lífsins þeim við "Þrumuflóa" í Miklavatni áður en langt um líður.

laugardagur, janúar 05, 2008

Fyrsta afmæli ársins...


Í gær héldum við upp á afmælið hans Helga, en hann varð 59 ára. Við fjölskyldan hans óskum honum innilega til hamingju með afmælið. Okkur finnst hann eldast vel.


Stór hluti dagsins fór í að velta fyrir sér hvað ætti að vera í matinn. Við ákváðum það svo að hafa risahörpuskel a la Gordon Ramsey í forrétt. Í aðalrétt var listilega steiktar rib eye steikur. Með þessu var opnuð 17 ára gömul rauðvínsflaska, Chateau Gruaud la Rose 1991, alveg flauelsmjúkt bordeaux vín. Lúxusmatur eldaður á heimaslóð.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Ingibjörg Þorbergs heiðruð...


Innilegar heillaóskir til Immu hans pabba en hún var sæmd íslensku fálkaorðunni í dag. Hún er vel að henni komin og við erum glöð yfir því að hún hljóti verðskuldaða viðurkenningu sem tónskáld og tónlistarmaður. Við höfum notið tónlistar hennar í gegnum árin og ég held að það sé á fáa hallað þegar við nefnum t.d. jólaplötuna hennar, "Hvít er borg og bær" í viðbót við aðra frábæra hljómdiska sem komið hafa út á síðustu árum. Ástarkveðjur frá okkur norðanmönnum og litlu fjölskyldunni í Baunaveldi.

mánudagur, desember 31, 2007

Gleðilegt ár...

Jólahátíðin hefur verið undirlögð af góðum bókum, miklu sjónvarpsglápi og leti í bunkum. Við höfum varla þurft að fara í búð, bara reynt að tæma ísskápinn. En í kvöld ætla feðgarnir að sýna snilli sína í eldhúsinu og elda Beef Wellington að hætti Gordon Ramsey. Í forrétt verða sniglar og ef eitthvað pláss verður eftir, þá er Pavlova í eftirrétt. Að loknu áramótaskaupinu munum við skála fyrir vinum og ættingjum og óska ykkur öllum farsæls nýs árs. Þar sem ekki er ennþá vitað hvort hægt verður að skjóta upp flugeldum á Eyjafjarðarsvæðinu, látum við fylgja mynd frá síðustu áramótum sem var tekinn hér af þakinu norður yfir gilið.

þriðjudagur, desember 25, 2007

Jólin, jólin alls staðar...


Við sendum öllum ættingjum og vinum okkar bestu jólakveðjur og óskir um farsælt komandi ár. Helga systir fær sérstakar afmæliskveðjur en afmælið hennar er í dag.

Hér norðan heiða liggur falleg hvít kápa yfir jörð og allt er mjög hátíðlegt. Allar matarkistur eru svo fullar að út úr flóir og við að sjálfsögðu búin að missa matarlystina. En aðfangadagskvöld var frábært með steiktum öndum (Andrés og Andrésína önd) og jólaís. Jón Gestur, Gerður og Daði komu til okkar og við nutum alls þess sem fram var borið. Við verðum að viðurkenna að þreytan náði okkur með hurðinni þegar leið á kvöldið því um miðnættið var hver komin til síns heima. Það var sofið fram yfir hádegi í dag og síðan hringt í alla ættingja sem til náðist með góðu móti. Pabbi minn tók við þessi jólin í sjúkrahúslegum fjölskyldunnar en hann var lagður inn með slæma sýkingu. Við óskum honum góðs bata og að hann verði komin heim um áramótin.
Fyrir þessi jól var farið í skógarferð í Þelamörk í Hörgárdalnum. Við fórum öll fjölskyldan og príluðum upp um fjöll og firnindi til að finna okkur jólatré. Helgi, Jón og Daði hjuggu trén síðan niður meðan við kellurnar, Auður, Gerður og Rebekka, horfðum á aðfarirnar.
Efsta myndin er af jólatrénu okkar, nýskreyttu í stofunni, næst kemur mynd af Jóni og Daða við þeirra jólatré, þriðja myndin er síðan af feðgunum við jólatréð okkar Helga, loks er mynd af okkur Rebekku þreyttum eftir fjallaklifrið. Skógræktin bauð okkur síðan upp á ketilkaffi við varðeld í fallegu skógarrjóðri.
Við drifum okkur síðan heim og fengum okkur heitt kakó til að hlýja okkur eftir ævintýri dagsins og kveiktum á þriðja kertinu á aðventukransinum.

sunnudagur, desember 09, 2007

Enn fjölgar í fjölskyldunni...

Við fréttum í gærkvöldi að Jóni og Nicole væri fædd dóttir í Kanada og hefði hún verið nefnd Ella Nicole. Við sendum innilegar hamingjuóskir til foreldranna, stóru systur og Gvendar og Dísu (afa og ömmu). Þegar ég fór að telja saman afkomendur pabba og mömmu, fæ ég ekki betur séð að Ella litla Nicole sé númer 20. Skemmtileg staðreynd.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Komin heim...

Ég komst heim á laugardagsmorgun með fyrstu ferð. Vegna mikils fjölda farþega var leigð þota með mannskapinn. Ég var svo heppin að ég fékk að sitja á fyrsta farrými sem er algjört æði fyrir svona gigtveika kellingu. Flugið norður tók ekki nema hálftíma, en í fyrsta aðflugi var vélinni kippt upp aftur. Vá, hugsaði ég, aftur á Egilsstaði? Nei, það voru biluð lendingarljós á vellinum en það mikið farið að birta að lent var í þriðju tilraun. Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég sá grákoll bóndans í mannfjöldanum á flugvellinum og sór þess eið að það yrðu margir, margir mánuðir áður en ég færi aftur í burtu. Þó svo að Birta hafi sagt að ég mætti alveg koma bráðum aftur. Það var mikil nautn að láta dekra við sig um kvöldið. Nautasteik og rauðvín í kvöldmatinn og danskt konfekt í desert. Það var ekki síðra að komast í stóra stólinn og rúmið sitt um kvöldið. Nú verða jólin haldin heima í fyrsta skipti í langan tíma. Um síðustu jól var Helgi á sjúkrahúsinu og þar áður vorum við á Spáni. Við ætlum að njóta þess að vera heima núna.

Það væsti ekki um mig á föstudaginn hjá Þórdísi og fjölskyldu. Á meðan Þórdís og Siggabræður fóru í leikhúsið um kvöldið, komu Guðrún, Hulda Kata og Stefanía að passa mig og Huldu Ólafíu. Við fórum og borðuðum á American Style. Ég mæli með hamborgurum á þeim stað. Kjúklingabringan sem ég pantaði var svo harðsteikt að það þurfti að skera hana í örþunnar sneiðar til að geta borðað hana. Hún var samt bragðgóð og meðlætið ágætt. Svo var farið heim og horft á ameríska jólamynd. Sem sagt fínt kvöld og frábær félagsskapur. Ég þakka kærlega fyrir allt saman. Þetta er það góða við að vera veðurtepptur. Tækifæri til að hitta þessa frábæru fjölskyldu sem ég á.